Morgunhanar vinsælli meðal stjórnenda

Morgunhanar vinsælli meðal stjórnendaÞeir sem mæta snemma til vinnu eru álitnir afkastameiri

Tveir starfsmenn með sveigjanlegan vinnutíma geta unnið sama tímafjölda og afkastað jafnmiklu, en mat stjórnenda á vinnuframlagi þeirra mun þó vera misjafnt.

Matið byggir á því hvenær starfsmaðurinn kýs að vinna.

Mæting að morgni ávísun á meiri afköst?

Stjórnendur hafa á tilfinningunni að þeir sem mæta til vinnu að morgni dags skili meiri afköstum og séu áreiðanlegri en þeir sem mæta síðar um daginn og vinna seinnipartinn.

 Washington Foster School of Business gerði rannsókn á þessu efni.

– Vinnustaðir refsa e.t.v. óafvitandi starfsmönnum með sveigjanlegan vinnutíma sem vinna störf sín seint á daginn. Í ljósi þess að endurtekið slælegt frammistöðumat hefur slæm áhrif á starfsframa, kann þetta að skýra hvers vegna sveigjanlegur vinnutími virðist draga úr starfsframamöguleikum viðkomandi starfsmanna, ef marka má Christopher Barnes, Kai Chi Yam og Ryan Fehr.

Útdrættir úr rannsókninni eru nú til umræðu í Harvard Buisness Review, en hún verður birt í heild sinni í Journal of Applied Psychology.

Tilraunir í rannsókninni

Rannsakendurnir við Washington Foster School of Business gerðu eftirfarandi tilraun:

141 þátttakandi var beðinn að setja sig í spor stjórnenda og meta frammistöðu ímyndaðra undirmanna sinna, byggt á frammistöðu þeirra, vinnutímum og starfsframlagi.

– Þetta leiddi í ljós að ímynduðu starfsmennirnir sem unnu frá 7-15 fengu hærri einkunn en þeir sem unnu frá 11-19, jafnvel þótt vinnuframlagið væri það sama.

Rannsakendur fundu einnig tengsl milli starfsvenja stjórnenda með sveigjanlegan vinnutíma og þess hvernig þeir mætu afköst annarra.

– Stjórnendur sem mæta á morgnana kunna betur að meta starfsmenn sem mæta snemma, en stjórnendur sem mæta seinnipartinn meta hvorugan hópinn betri en hinn.

Hver er hvatinn?

Greinin vísar til rannsóknar sem gerð var af University of Minnesota og Vanderbilt University.

Þeir komust að nákvæmari niðurstöðu:

  • Stjórnendur með jákvætt viðhorf gagnvart sveigjanlegum vinnutíma eru yfirleitt jákvæðir á sveigjanlegan vinnutíma ef þeir telja hann hjálpa starfsmönnum að skila meiri afköstum.
  • Ef talið er að starfsmenn noti sveigjanlegan vinnutíma af persónulegum ástæðum eru flestir stjórnendur neikvæðir.

Með öðrum orðum virtist sem starfsmenn væru verðlaunaðir eða þeim refsað byggt á því hvað stjórnandinn teldi hvatann að baki notkunar á sveigjanlegum vinnutíma.

Aðrar rannsóknir

Nina Cathrine Berg er yfirráðgjafi hjá norsku vinnuumhverfisstofnuninni, Arbeidsmiljøsenteret. Hún segir að erfitt sé að heimfæra slíka rannsókn frá Bandaríkjnum yfir á Noreg.

– Vinnuumhverfi okkar er mjög ólíkt því bandaríska. Það byggir síður á einfölduðu mati á frammistöðu eins og sjá má í bandarískum rannsóknum. Sum fyrirtæki eru þó undir meiri áhrifum slíkra þátta en önnur, segir Berg.

Hún segir þetta frekar geta átt við í stórum alþjóðlegum fyrirtækjum.

– Í minni fyrirtækjum, sem algengust eru í Noregi, held ég að auðveldara sé að sjá frammistöðu fólks beint. En það er mitt persónlega mat byggt á reynslu, en ekki rannsóknum.

Byggir á trausti

Sverre Simen Hov, fjölmiðlafulltrúi hjá norsku stjórnendastofnuninni, Lederne, bætir við:

– Fólk er ólíkt. Sumt fólk afkastar miklu snemma á daginn á meðan aðrir geta afkastað jafnmiklu seinna á daginn. Það mikilvæga er að treysta hverjum starfsmanni.

Hann segir að vinnuveitendur sem treysta starfsmönnum, uppskeri oft betur heldur en þeir sem mæli og stjórni degi starfsmannsins í þaula.

– Þegar æ fleiri vinnuveitendur búast við sveigjanleika frá starfsmönnum sínum, þá verða þeir að reikna með kröfum um sveigjanleika á móti, t.d. þegar kemur að því á hvaða tíma dagsins vinnan er innt af hendi.