Ómannað skip sem losar ekki gróðurhúsalofttegundir

Ómannað skip sem losar ekki gróðurhúsalofttegundirLausn fyrirtæksins DNV GL er sérstaklega hönnuð fyrir strandsiglingar við Noreg

Svona sér DNV GL fyrir sér framtíð skipaiðnaðar í Noregi. ReVolt er heitið á nýrri hugmynd að 60 metra löngu hægfara flutningaskipi án áhafnar, sem hleður sig í höfn.

Sjálfstýrð skip virðast vera það sem koma skal. Teknisk Ukeblad í Noregi greindi nýlega frá því að vísindamenn frá rannsóknarstofnuninni SINTEF hafi leitt líkur að því að 200 metra löng sjálfstýrð flutningaskip verði komin á markaðinn innan 10-20 ára.

Byggt á gögnum AIS

Hans Anton Tvete er verkefnastjóri og stýrði rannsókninni fyrir ReVolt. Hann segir rannsóknina hafa byggt á þjóðarmarkmiðum um að auka hlut sjóflutninga og flutninga með lestum á kostnað landflutninga á vegunum, til þess að draga úr álagi á vegakerfið.

“Með því að greina AIS gögn sáum við að smærri flutningaskip væru burðarásar sjóflutninga um styttri vegalengdir í Noregi. Þetta skapar grunn að skipahönnun framtíðarinnar” segir Tvete.

DNV GL, sem er flokkunarfélag, hefur ekki í hyggju að framleiða skipin sjálft, en vill sjá hve vel nútímatækni getur mætt þessum hugmyndum og veita öðrum innblástur til þess að hugsa öðruvísi.

Ómönnuð skip eru ólögleg á sjó í dag. Ómannaða skipið, sem hér er fjallað um, er bara til sem líkan í hlutföllunum 1:20, en hefur verið prófað á firðinum sem höfuðstöðvar DNV GL standa við í Høvik.

 

100 sjómílur

Þetta endurhlaðanlega skip er ætlað fyrir hæga ferð, rétt um sex hnúta. Þetta er mikilvægur eiginleiki til þess að gera það hagkvæmt að sögn Tvete.“Samkvæmt AIS gögnunum sáum við að flutningaskip fyrir styttri vegalengdir eru hægfara, með meðalhraða upp á 8,7 hnúta. Við drógum enn frekar úr hraðanum til þess að minnka núning og þannig að rafhlaðan gæti verið enn minni.

Tvete segir að jafnvel þótt hugmyndin byggi á norskum skipaiðnaði, þá sé hún alveg jafn fýsileg fyrir önnur Evrópulönd, þar sem flutningsrými í skipaflutnigum sé í brennidepli. Hugmyndin gæti nýst sérstaklega vel í siglingum um skipaskurði.

Rafdrifin skip eru nú þegar orðin að veruleika, og eftir nokkra mánuði er von á fyrstu rafdrifnu ferju Noregs.

ReVolt á að hafa 3000 kWh rafhlöðu, sem ætti að nægja í 100 sjómílur, en þyrfti í hleðslu við bryggju.

 

Lofttæmislandfestar

Hleðslan á rafhlöðunni þarf að koma frá endurnýjanlegum orkugjafa og má ekki losa gróðurhúsalofttegundir. Að auki þurfa hleðslustöðvar að vera til staðar á höfnunum.

Einn ókostanna við skipaiðnaðinn í dag er mikill fjöldi vinnustunda sem fer í viðhald. En með fáum íhlutum sem snúast, loftskrúfu (e. podded propeller) í stað hefðbundinnar skipaskrúfu og lokuðum loftþéttum skipslestum, má halda viðhaldi í lágmarki.

Í dag tíðkast að skipsverjar leggi skipum við hafnir. Þess í stað mætti hugsa sér lofttæmislandfestar, sem raunar eru nú þegar komnar í notkun á sumum höfnum.

DNV GL sér fyrir sér sjálfstýrt siglingakerfi, sem byggir á vel þekktum stöðlum, s.s. ECDIS (stafrænu siglingakerfi), GPS, radar, myndavélum og LIDAR.

 

Gæti sparað milljónir dollara

Með því að skera niður í starfsmannafjölda, viðhaldi og eldsneyti, segist DNV GL geta sparað 34 milljónir Bandaríkjadala, samanborið við díselknúið skip af sömu stærð.

DNV GL telur lausnina líka stuðla að auknu öryggi. Í skipaiðnaði deyja 900 manns á ári, sem er meira hlutfallslega en í sambærilegum atvinnugreinum á landi.

Rannsóknir sýna að allt að 85% slysa á sjó orsakast af mannnlegum mistökum, en DNV GL telur aukna sjálfsstýringu í skipum geta lækkað þetta hlutfall.